Gengið á rétt margra.

Að þurfa að dvelja á hjúkrunarheimili er ekki eitthvað sem fólk velur sér, heldur kostur sem fólk verður að taka því það getur ekki lengur búið á heimili sínu, heilsu sinnar vegna. Þetta er stórt skref fyrir viðkomandi og nánustu aðstandendur. Því er mikilvægt að hjúkrunarheimilin séu í stak búin til að sinna hlutverki sínu.

Að flytja á dvalar- eða hjúkrunarheimili er stór breyting í lífi hvers einstaklings. Tengdafaðir minn átti þá ósk heitasta að geta búið heima hjá sér eins lengi og kostur var. Hann taldi þó líklegt að hann kæmist ekki hjá því að flytja á dvalar-/hjúkrunarheimili. Honum þótti það ekki góður kostur en tók þá ákvörðun að venja sig við lífið þar með því að fara þangað nokkrum sinnum í viku og borða þar hádegisverð. Þetta var hans aðlögun að því er seinna kom. Þá þekkti hann bæði heimilisfólk og starfsfólk og hið óumflýjanlega varð honum auðveldara. Önnur öldruð vinkona mín sem átti eins og svo margir þá ósk að geta búið heima hjá sér alla tíð, þurfti heilsu sinnar vegna að gefa þá von sína upp og flytja á dvalarheimili. Hún hefur nú búið þar í nokkur ár. Þegar ég heimsæki hana segir hún mér að hún hafi það "svo sem" ágætt þarna á Hælinu. Sannarlega hefur hún það, því hún er þarna í öruggu umhverfi, heilsan leyfir ekki lengur að hún geti sinnt sér og heimili sínu án aðstoðar. Fólkið á dvalarheimilinu sem staðsett er úti á landi þekkir hana og hennar. Það er sæmilegasta festa í starfsmannahaldi og hjálpar það mikið til.

Þegar faðir minn fór á hjúkrunarheimili var það vegna þess að hann var orðin svo mikill sjúklingur og þurfti því á mikilli faglegri umönnun að halda. Hann hefur dvalið á hjúkrunarheimili í Reykjavík í nokkur ár. Þar er enginn sem þekkir hann frá því áður en hann veiktist, engin sem þekkir okkur. Þar eru endalaus mannaskipti, manneklan og mikið af ófaglærðu fólki sem ekki talar íslensku. Á meðan "Góðærið" át upp þjóðfélagið okkar var ekki hægt að manna stöður þarna með fagmenntuðu fólki þannig að það héldist í starfi. Þetta hefur verið erfitt fyrir hann. Hann er háður öðrum með allt sitt líf. Hann dregur andann og sér með augunum sínum. Næringu fær hann í gegnum sondu. Þegar hann hefur "fótavist" er það í hjólastól sem er eins og ferlíki því hann er lamaður, spastískur og allur hnýttur. Við erum að tala um mann sem áður var heilsuhraustur, vinnusamur maður, kærleiksríkur og umhyggjusamur faðir og eiginmaður. Akkerið okkar. Í dag er hann eins og áður sagði, öðrum háður með allt og þess vegna er það svo mikilvægt að öll umönnun í kringum hann sé fagleg og vel gerð því hjá honum má ekkert út af bregða. Í sumar hafa verið ráðin sumarafleysingabörn til starfa á deildina hans. Það hefur komið niður á honum. Það er ekki sjálfgefið að 18 ára barn hjúkrunarfræðings á staðnum hafi fag- og verkþekkingu móður sinnar. Ég ætlast ekki til þess. En ég ætlast til þess og finnst eðlilegt að með svo mikinn hjúkrunarsjúkling sem faðir minn er, sé fólk sem kann til verka til að sinna honum. Líkamlegt ástand hans fer ekkert í frí þó starfsfólkið á deildinni sé í fríi. Að faðir minn eftir þetta sumarfrís ástand er nú með mein sem ekki voru þar fyrir sumarfrí finnst mér alvarlegur hlutur. Með hans heilsu á ég ekki von á að fótamein grói. Sár sem kom þegar óharðnaðir sumarafleysingaunglingar voru að setja hann í hjólastólinn. Eða kannski kom það af því fóturinn var ekki rétt settur í fetilinn og hefur því lent utan í vegg eða öðru sem særið viðkvæmt hörundið. Hann var í höndunum á fólki sem ekki kunni til verka sinna. Finnst líklegt að þarna sé komið varanlegt vandamál. Að koma heim til Íslands nú í sumar og ætla að eiga góðar stundir með föður mínum fór öðruvísi en ætlað. Sorgin yfir því hvernig umönnuninni á honum var háttað var stór og þungbær. Hann getur ekki kvartað. Hann getur bara horft á þig með tillitsfullu augnaráði sínu og þú veist að hann spyr: hví getur fólkið ekki hugsað betur um mig?

 


mbl.is Segir gengið á rétt sjúkraliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sorglegt að heyra elsku vinkona, ég var að leyfa mér að vona að það mundi fjölga góðu fólki á þessum stöðum nú í kreppunni, en launin þarna eru skammarleg.  Ég var að lesa færsluna hér á undan, yndisleg og ljóðið sem þú birtir frábærlega ort og kemur mér í sérstakan "fíling" verð að komast yfir þessa diska.  Kær kveðja til ykkar Billa héðan úr flensubælinu.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.8.2009 kl. 13:08

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hrikalegt að heyra.  Heyrði nokkrar sögur þegar ég var heima og varð eiginlega alveg kjaftstopp.  Góða helgi vinkona.

Ía Jóhannsdóttir, 14.8.2009 kl. 17:35

3 Smámynd:

Þetta er ömurlegt ástand og skammarlegt að "góðærið" skyldi ekki notað til uppbyggingar á heilbrigðis og menntakerfi landsins.

, 14.8.2009 kl. 20:22

4 identicon

Já því miður er þetta altof víða þannig eins og þú lýsir hérna að ofan ,og ergilegt er það líka að lífeyririnn er það lítill hjá fólki sem er búið að þræla alla sína tíð,að það er varla sem það dugar til að fók dragi fram lífið á þessum stofnunum ,og ergilegt er það að heldur vesnar þetta allt eftir að kreppan varð til .Það er skelfilegt að hugsa til seinustu áranna  hjá fólki .

Jón Reynir Svavarsson 14.8.2009 kl. 23:17

5 identicon

Þetta er bæði sorglegt og skelfilegt.  Föður þinn þekkti ég vel eins og þú veist og þótti vænt um hann eins og öllum sem honum kynntust.  Örlög þessu lík verðskuldar engin mannleg sál.  Móðir þín hefur staðið sig svo vel að með ólíkindum má telja, alltaf tilbúin að hjálpa sínum manni.  Það er eins og venjulega hér á Íslandi, ætíð níðst á þeim sem geta ekki varið sig, þeim sem hafa skilað þjóðfélaginu, vinnu sinni, lífsþrótti, æsku og öllu sem það á.  Fyrir stuttu síðan var stutt viðtal við aldraða konu sem var vistmaður á heimili fyrir aldraða.  Þar var hún að fara í sumarfrí, og þar sem hún beið eftir að dóttir hennar sækti hana, var henni tilkynnt eins og ekkert væri að hún ætti ekki afturkvæmt á heimili sitt þar sem ætti að loka því.  Vesalings gamla konan, var grátandi og gjörsamlega miður sín.  Ég held að margur maðurinn hafi tárast yfir fréttinni og það læddust tár fram í augnkrókana á mér.  Þetta er forsmán fyrir þjóð sem telur sig með siðuðu fólki.  Eins og þú lýsir ástandinu með föður þinn og ég veit að er satt og rétt í öllum atriðum, veltir maður fyrir sér, hvað sé hægt að gera til að mótmæla þvílíku óréttlæti.  Þetta er furðulegt þjóðfélag sem lætur slíkt himinhrópandi óréttlæti ganga yfir þá sem mest þurfa á hjálp að halda.  Á meðan á þessu stendur lepja aðrir rjómann og engin lög virðast ná yfir þau vesalmenni sem valdið hafa ósköpunum sem dunið hafa yfir þessa þjóð.  Þú skrifar fallega og ég hef gaman af að lesa bloggið þitt, haltu því endilega áfram.  Kveðjur til þín og þinna og líði þér ætíð sem best.  Dædí.  ( Dana Kristín. )

Dana Jóhannsdóttir 15.8.2009 kl. 12:23

6 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þetta er mjög átakalenlegt . Það virðist vera allsstaðar að gamla fólkið er sett á hakan, sem er með öllu óskiljanlegt, grunnur þess sem við höfum, eða á íslandi höfðum. við ættum að skammast okkar að setja þetta ekki hærra á mikilvæga listann þegar kosið er !

laugardagsknús til þín frá mér

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 15.8.2009 kl. 14:10

7 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Ásdís mín, vona að ykkur sé nú að batna flensan svo þið getið notið síðsumardaganna sem fram undan eru. Held að þetta góðæri sem talað var um hafi í raun ekki verið góðæri heldur brjálæði sem fáir áttuðu sig á. Trúi enn að það eigi eftir að koma gott og hæft fólk inn í ummönnunargeirann en erfitt á meðan það er ekki.

Ía og eins og þú veist þá er þetta ekki sagan öll... hvorki hjá hér né hinum sem þú heyrðir um. Bara brot. Hollustukveðjur til þín :o)

Dagný, þetta var allsherjar klúður.

Jón Reynir, spurning hvort maður leggur í að hugsa þá hugsun til enda...

Takk Dædí mín, þú veist hvernig þetta er. Hafðu það gott

Já Steina við ættum að skammast okkar, við erum öll ábyrg. 

Ég vona að "kreppan"  breyti verðmætamati fólks og forgangsröðun. 

Guðrún Þorleifs, 16.8.2009 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Guðrún Þorleifs

 Önnum kafið flón . . .

sem elskar lífð og tilveruna 

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband