Áfram halda vorverkin . . .

Tók daginn í gær snemma. Engin ástæða til að missa af góðum degi. Í morgunnsárið var hiti um 3° en þegar sólar fór að njóta komst hitinn í rúmar 12° sem er heitasti dagur það sem af er þessa árs hér hjá okkur. Ekki slæmt það. Við hjónakornin mætum á stað staðanna rétt yfir 10. Þarna var fullt af fólki í sömu erindagjörðum og við, taka daginn snemma og losa sig við rusl. Ægilega skemmtilegt dæmi. Við kvöddum þarna gömlu rafmagnssláttarvélina okkar sem liðsinnt hefur okkur síðan sumarið 1991. Nú er hún farin á vit nýrra ævintýra . . .  Endurvinnsluferlið verður sjálfsagt feikna spennandi, engin ástæða til að efast um annað. Lífið er svo skemmtilegt!
Eftir þennan gjörning var haldið heim. Vegna veðurs ákvað minn maður að skella sér í hjólatúr, þann fyrsta á þessu ári. Ég óskaði honum góðrar ferðar og hét út í garð, rakaði saman brotnum greinum og hreinsaði illgresi. Rosalega gott að stússa í slíku þegar mikið kvef angrar. Kosturinn er fólginn í því að utanhúss getur maður notað "hjólamannaaðferðina" við að snýta sér! Hún fer vel með fögur nef.
Vorblíðan sem geisar hér nú, mun ekki endast lengi en ástæðulaust er að njóta hennar ekki.
Undir helgi mun streyma hingað kalt þurrt loft og því kólna og frjósa um nætur. Það gleður mig verulega að eiga von á næturfrosti. Þannig er að ekki fyrir svo löngu síðan fór ég í búð. Var að skila hlut sem mér nýttist ekki. Til að nota nú inneignina áður en ég tíndi henni ákvað ég að versla bara fyrir  hana. Eitthvað mikilvægt og þarft fann ég þarna, en ekki dugði það upp í inneignina. Leit ég í kringum mig og rak augun í spreybrúsa á borðinu við hægri nasavænginn á mér. Hvað er þetta spurði ég fróðleiksfús. Ungi afgreiðslumaðurinn fræddi mig á að þarna væri um að ræða sprey á brúsa sem nota ætti á köldum morgnum þegar komið væri að eigin bifreið með ísingu á rúðum. Væri efninu ætlað að eyða þeirri ísingu á nótæm, hviss, bæng engin ísing á rúðunni og því ekkert skaf með sköfu! Þetta hljómaði líkt og Ajax auglýsingin hér forðum. Þessi sem sýnir Ajaxið fara sem stormsveip um húsið og hviss og bæng allt er hreint. Hef ég margprófað þá aðferð og aldrei náð árangri. Ég ákvað samt að festa fé mitt í þessum spreybrúsa og eiga hann í skottinu á mínum eðalvagni. Er skemmst frá því að segja að síðan hefur hér herjað vorveður ef undan er skilið einn morgunn þar sem þunn ísskán lá á bílnum norðanverðum. Gaf það mér langþráð og kærkomið tækifæri til að prófa "ekki meira skafa með sköfu" efnið. Er styðst frá því að segja að helvítis efnið virkaði betur en Ajaxauglýsing og gladdi árangurinn hug minn og hjarta, þó mest hendur er ekki króknuðu úr kulda við skaf með sköfu. Ef ekki hefði háttað þannig til að ég var að fara að aka mínum manni í vinnu og sjálf svo á leið í mitt menntasetur þá hefði ég ef einhverjir bílar hefðu verið heima í sínum innkeyrslum úðað með með gleði allar rúður í norður og austur.  

Þetta var helst í fréttum núna, farin út að horfa á páskaliljurnar LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

 

Guðrún Þorleifs

 Önnum kafið flón . . .

sem elskar lífð og tilveruna 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband