Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Símtal og þakkir

Í gær vorum við "stjórnarfulltrúar" fjölskyldunnar staddar upp í búð hjá Fjólu systir. Mjög skemmtilegt hjá okkur. Tekin flott ákvörðun um að hittast í dag með alla þá afkomendur sem eru á landinu. Það þýðir að einungis vantar 1, flökkudrenginn minn Heart

Þar sem við stóðum þarna og skemmtum okkur, hringir síminn hjá múttu krúttu og ég heyri hin eina sanna hljóm frumburðar míns á hinum enda samtalsins. Mútta krútta ljómaði eins og sól, þegar hún heyrði rödd elsta barnabarnsins síns. Hún hafði ekki heyrt í honum í 110 daga. Þau létu móðan mása, skiptust á fréttum og upplýsingum, hlógu og voru svo glöð. Síðan fékk ég tólið og við töluðum þangað til símakortið hans var búið. Ekkert smá sem ég hlakka til að knúsa hann 2. ágúst!!!

Þetta samtal ásamt "stjórnarfundinum" setti af stað vangaveltur hjá mér. Ég fór að velta því fyrir mér hvílíkt ríkidæmi mamma og pabbi ættu. Ég komst að því sem ég vissi reyndar, að þó svo pabbi sé mikill sjúklingur þá hafa þau í sínu lífi eignast það sem er mikilvægast að mínu mati: hamingjusama fjölskyldu. Á föstudaginn eru 50 ár síðan þau eignuðust fyrsta gullmolann sinn og síðan hefur þeim fjölgað. Þau eiga í dag 4 gullmola sem allir eiga hver sína 3 gullmola og fleiri gullmolar hafa bætts í hópinn og í dag teljast formlega 20 gullmolar í safninu. Ómetanlega verðmætt safn þarna á ferðinni.

Barnalán hefur fylgt pabba og mömmu, en ekki verður annað sagt en að foreldralán hafi fylgt börnum þeirra. 

Að hafa átt foreldra eins og við systkinin eignuðumst er ómetanlegt veganesti inn í þennan heim.  Við vorum umvafin kærleika og öryggi. Við vorum hvött til dáða, á okkur var trúað og treyst.

Uppeldi okkar gaf okkur gott veganesti út í lífið. Það gerði það að við höfum staðið af okkur lífsins öldugang, staðið saman og gefið hvert öðru væntumþykju og stuðning.

Í dag er það pabbi sem nýtur þess að mamma er eins og hún er.  Hún mamma sem af ást og eðlislægri umhyggju hefur sinnt okkur öllum, sér nú um hann pabba og gerir allt sem hægt er til að gera honum lífið sem best við þær aðstæður sem lífið hefur skapað honum. Hún mamma er ótrúleg. Hún er snillingur í því sem hún gerir og tekur að sér. Hún hefur aldrei gefist upp þó á móti hafi blásið nú þegar hún er ein í lífsbaráttunni. Hún hefur ótrauð tekið að sér verkefni hennar og pabba hér í þessum heimi. Hún á allan stuðning okkar systkinanna vísan þegar á þarf að halda. Að eiga svona mömmu er ómetanlegt. Hvort við erum nógu dugleg að segja henni hvað okkur þykir gott það sem hún gerir alla daga, efast ég um. 

Í kvöld verður fjör, þá ætlum við að hittast og það frábæra er að einungis vantar einn í hópinn og það er ásættanlegt. Hann er úti að leika sér í hinum stóra heimi, safna reynslu fyrir lífið, vaxa og þroskast sem einstaklingur. Það er gott. Hann er elsta barnabarnið. Á sérstakan stað í huga afa síns og ömmu, því hann hefur verið svo mikið hjá þeim. Hann gekk með þeim í gegnum tímabil sem breytti miklu í lífi fjölskyldunnar.  Tímabilið þegar heilsan hans pabba hvarf frá honum. Það voru erfiðir tímar en þroskandi fyrir ungan dreng. Tímabil sem hefur mótað hann og verið með til að gera hann að þeim frábæra einstakling sem hann er.

Takk elsku mamma og pabbi fyrir allt það góða sem þið hafið gert fyrir mig og börnin mín.

 


Innfluttningur, útfluttningur, áframfluttningur . . .

Flutti inn gírafa frá Þýskalandi til DK. Fékk konu í verkið. Ábyrga. Ég er milliliður/miðlari. Það er innfluttningur til Dk. Ætla að flytja hann frá Dk til Ísl. Það er útfluttningur. Búin að fá ábyrgann mann og pottþétta unga stúlku til þess.

Hvernig kemur maður gírafa í flug? Shocking

Ætla svo að flytja hann til SFtown, það verður áframfluttningur.

Verð ég tekin??? 


Útgjöld verða ekki flúin...

tannburstinn er  . . . horfinn.

 

Smá leiðindi í rigningunni hér, svo agalega óvön svona veðri Whistling

Nei, ég ætlaði á Esjuna, en það hvarflar ekki að mér í rigningu og engu skyggni Shocking

Gott veður, takk fyrir  Jón Topp!!! 


Það var og...

Klukkan 14.00 á föstudaginn fyrir rúmri viku kom í ljós að við vorum ekki að fara til Tyrklands þá um kvöldið. Hviss og bæng, breytt plön hjá okkur og fleirum. Auðveldara fyrir okkur að átta okkur á því en suma aðra. En..
Við áttum frábæra daga í Þýskalandi þar sem ævintýri gerðust oft á dag. Prílaði meðal annars upp og niður fjöll Wink  Bara ljúfur draumur.

Í dag hefst ný ferð og henni fylgir kveðjustund við litla vinkonu sem fer til Tyrklands á fimmtudaginn, nú er það pottþétt. (Held ég) Þegar ég kem frá landinu góða, verður önnur ferð plönuð. Þá verður kannað nýtt land, nýjar aðstæður. Það verður spes ferð.

 

Sonurinn er búin að vera á ferðalagi í 104 daga. Styttist í að hann komi til DK, bara 17 dagar í að ég hitti hann og knúsi InLove

Mikil ferðalög hafa einkennt fjölskyldulífið það sem af er þessu ári. Ég hélt að allt yrði komið í ró um sumarmál en svo er ekki ferðalög virðast ætla að einkenna þetta ár. Það er bara skemmtilegt.


Sorg í ...

Sorg í sinni og litlu hjarta.

Rosalega er erfitt þegar kveðjustund sem var í fjarska steypist yfir þig. En þannig er og verður líf sumra. Ákvarðanir fluttar til vegna eigin hagsmuna og langana. Sumir eru þeim eiginleikum gæddir að geta aðlagast beitingum nokkuð auðveldlega, jafnvel með gleði. En ekki allir. Litla viðkvæma sálin sem á svo erfitt með að henda reiður á svo margt í þessu flókna lífi þarf öryggi, festu og endurtekningu. Slík sál á erfitt með breytingar, þarf tíma, þarf að finna öryggi. Trúa að allt verði í lagi. Treysta.
Ekkert af þessum atriðum er til staðar í dag. Það er, öryggið, trúin og traustið.

Að fá að heyra að með til komu manns inn í flókið og tætt líf þessarar sálar, hafi komið birta og öryggi. Að heyra hana útskýra á einfaldan hátt, ástæðu þess að líf hennar er með þeim hætti sem það er, kallar fram tár í auga.
Að baki orða hennar liggur skilningur sem er svo djúpur að undrun sætir, þegar litið er til þess að hvert  einfalt atriði í daglegum gjörðum viðkomandi getur reynst þrautinni þyngri að leysa.

Þetta var það sem ég vildi sagt hafa hér í byrjun dags.

 

 

Er sem sagt að fara til Tyrklands.

Alltaf gott að vera búin að koma á staði sem maður þarf kannski að fara á . . .

 


Heimsendir ???

Þegar ég var lítil snót lék ég stundum við hana Sigrúnu. Hún var rosa stór og vissi mikið, enda heilu ári eldri en ég. Einn daginn sagði hún mér, að um kvöldið yrði heimsendir. Hún útskýrði rækilega fyrir mér hvernig þetta gengi fyrir sig. Ég trúði öllu sem hún sagði enda bar hún föður sinn, skipstjóra á risaskipi fyrir þessu. Ég flýtti mér heim en varð ekki vör við áhyggjur hjá foreldrum mínum og ekki vildi ég íþyngja þeim með þessari skelfilegu vitneskju minni. Um kvöldið átti ég erfitt með að sofna. Þið vitið, hvað ef ég vakna ekki aftur og eins hitt, hvernig gerist heimsendir í alvörunni? Miklar pælingar fóru fram í kolli mínum þetta kvöld. Reglulega kallaði ég fram: Hvað er klukkan? En hún var bara hálf tíu og svo var hún korter í tíu og svo var hún tíu og svei mér ef mömmu var ekki farið að leiðast þessi óvanalegu köll í mér Crying Tíminn leið og ég beið, ekkert gerðist enda átti þetta að gerast um miðnætti. Váá...  hvað ég var hrikalega hrædd inni í mér. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að nefna þetta við mömmu og pabba, því hvað ef þetta væri bara allt vitleysa? Nú eða það sem verra væri ég  gerði þau hrædd líka? Það er ekki gott að eiga hrædda foreldra. Svona flugu hugsanirnar í kollinum fram og til baka, upp og niður, út og suður. Smám saman hefur nú hægst á þeim því litla snótin lét undan Óla Lokbrá og féll í svefn fyrir miðnætti og missti því af heimsendanum sem aldrei kom!
Næsta morgunn vaknaði ég og áttaði mig mjög fljótt á því að ég var lifandi, að ég var í rúminu mínu, í herberginu mínu, að pabbi var að gera sig kláran í að fara til vinnu og umferðin á Miklubrautinni var með eðlilegum hætti.
Þennan dag lærði ég lexíu sem ég hef nýtt mér. Að ekki er allt satt sem sagt er, jafnvel þó það séu mér eldri sem fullyrða það og að maður deyr yfirleitt bara einu sinni og þá er allt búið eða þannig.
Er það ekki???

Til hvers að hafa áhyggjur af einhverju sem hugsanlega verður ekki?

Þetta rifjaðist upp hjá mér þegar ég las bloggið hennar Hullu 

 


 

Guðrún Þorleifs

 Önnum kafið flón . . .

sem elskar lífð og tilveruna 

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband